Ísáning í tún eftir kal með sérhæfðum ísáningarvélum

1569

Vorið 2020 var víða mikið kal í túnum á norðaustur- og austurlandi. Við svona aðstæðum þarf að bregðast til að reyna að ná uppskeru sem til þarf fyrir bústofninn sem. Við endurræktun eftir mikið kal á eldri túnum þarf yfirleitt að plægja þau upp, en á yngri túnum 1-3 ára nýrækt/endurrækt er mögulegt að beita svokallaðri léttvinnslu, þ.e. grunn yfirborðsvinnsla með pinnatætara eða með ísáningu með sérhæfðum ísáningarvélum. Ef þær tvær síðast nefndu aðferðir eiga að bera árangur þarf að skoða vel hvort varpasveifgras (vetrar einært sveifgras) sé byrjað að spíra í kalskellunum því ef svo er þá nær það yfirleitt yfirhöndinni og kæfir sáðgresið sem er að spíra fram.

Í þessari grein verður sagt frá góðum árangri af ísáningu með sérhæfðri Vredo ísáningarvél í mikið kalið tún á Möðruvöllum í Hörgárdal vorið 2020 þar sem undirritaður er búsettur. Mikið kal var hér í Hörgársveitinni og leituðu bændur til mín varðandi viðbrögð við því m.a. sá bóndi sem er með túnin á Möðruvöllum 1 á leigu, en gríðarlega mikið kal var í nýlega endurræktuðum túnum á Möðruvöllum bæði í mýrar- og móa-/melatúnum, sjá myndir 1 og 2.

Mynd 1: Drónamynd Rúv, tekin 14. maí 2020 sem sýnir kal í mýrartúnum á Möðruvöllum 1 Hörgárdal, horft til norðvesturs

Ráðlagði ég honum að plægja upp eldri endurræktuðu túnin og í þau var sáð grasi og skjólsáð með höfrum, en í yngri túnin þ.e. eins  og þriggja ára endurrækt ráðlagði ég að prófa ísáningu með Vredo ísáningarvél sem flutt var inn af Kristni Ásmundssyni bónda á Höfða 2 í Grýtubakkahreppi 2017 og var hann þá í sambandi við mig um það. Þessi vél hefur eitthvað verið notuð við ísáningu í kalin tún, en ég hef því miður ekki haft tækifæri til að fylgjast með árangri af því, en annars hefur hann notað hana talsvert við að sá grasfræi í gróin tún til að viðhalda sáðgresi í þeim.

Mynd 2: Drónamynd Sigurgeir Hreinsson, tekin 11. júní 2020 sem sýnir kal í Efstuakramýri Möðruvöllum 1 Hörgárdal horft til suðausturs

Hjá búnaðarfélaginu Trölla hér í Hörgársveitinni er til gömul ísáningarvél sem flutt var inn af Rannsóknastofnun landbúnaðarins á sínum tíma til rannsókna, en var nánast ekkert notuð til margra ára þar til árið 2011 að við Ingvar Björnsson þá ráðunautur hjá Ráðgjafarþjónustu á norðausturlandi standsettum hana og prófuðum ísáningu í mikið kalin tún í Skíðadal í Dalvíkurbyggð. Eftir þetta eða frá 2013 hefur þessi vél verið mikið notuð hér og oft með góðum árangri þegar hún hefur verið notuð við réttar aðstæður eins og nefnt er hér að framan. Sú vél er driftengd með tætarahjól sem tætir grunnar rásir fyrir framan hjólhníf með áföstu sáðröri, sem fellir fræið niður. (Á heimasíðu RML má sjá myndir af þessari vél ásamt samantekt eftir Ingvar sem hann tók saman eftir athuganir okkar á árangri af ísáningu með henni, eftir mikið kal í Skíðadal í Dalvíkurbyggð 2011, eins og áður sagði).

Þessi Vredo ísáningarvél er öðruvísi uppbyggð, hún er dragtengd með diska sinn hvoru megin við sáðrörin sem koma í spíss að framanverðu og opna svörðinn þegar vélin er dregin eftir landinu og fræið fellur niður í rásina milli þeirra. Dýptinni er stjórnað af meiðum sinn hvoru megin við diskana því hægt er að láta þá ná mis langt niður fyrir meiðana sjá myndir nr. 3 og 4. Hver þessara eininga er með sjálfstæða fjöðrun á stífum gormum og fylgja þær vel landinu við ökuhraða um 5 km pr .klst. Þessar vélar er hægt að fá með mismunandi tromlum eða völtum og þessi tiltekna vél er með tromlu með tenntum gjörðum sem loka rásunum um leið og sáð er sjá mynd nr. 5 af Vredo ísáningarvél. Þannig er hægt að vinna verkið í einni yfirferð um landið. Kostur við þessa sáðvél er að það eru aðeins 8 sm á milli sáðrása, en  þetta bil er á mörgum vélum með sáðrörum 12 sm. t.d. eins og er á gömlu ísáningarvélinni sem lýst var hér að framan. Þetta 12 sm bil er helst til of mikið fyrir gras eins og vallarfoxgras sem vex í toppum eða þúfum og getur því lítið breitt úr sér til að fylla í eyður milli raða ef það er ræktað í hreinrækt, sem veldur því að illgresi eins og t.d. varpasveifgras nær að spíra fram.

Þar sem Kristinn í Höfða 2 var í sambandi við undirritaðann við innflutning á þessari Vredo vél, langaði mig til að prófa hana miðað við þær aðstæður sem höfðu skapast á Möðruvöllum og varð fyrir valinu 1 árs endurrækt á svokallaðri Efstuakramýri 6,8 ha að stærð. Þetta tún er ekki gamalt, en var tekið til endurræktar 2017 og það ár og 2018 var ræktað korn þ.e. bygg til þroska og síðan lokað með grasfræi 2019. Þó landið væri aðeins opið í tvö ár þá þurfti að úða það með illgresiseyði vegna arfamyndunar og síðan var slegin þrifasláttur seint í ágúst.

Mynd 3: Sýnir hvernig diskarnir opna svörðinn til niðurfellingar á fræinu.
Mynd 4: Meiðar sinn hvoru megin diskanna.

Eftir það eða í september var sauðfé hleypt inná túnið sem þá var orðið svolítið loðið og hreinsuðu kindurnar vel upp endurvöxtinn og fór túnið því nokkuð snöggbeitt undir veturinn sem gæti hafa valdið því hvað kalskemmdirnar urðu miklar. Þar sem undirritaður hafði ekki prófað að nota þessa ísáningarvél áður, þá sá ég sjálfur um ísáninguna og virkaði vélin mjög vel við þessar aðstæður þ.e. að meiðarnir fylgdu landinu algjörlega og sáðdýptin því mjög jöfn eða um 1 sm, sem er hæfileg dýpt fyrir grasfræ af þessari stærð, en notuð var grasfræblanda 2 frá Bústólpa um 25 kg á hektara en í henni er vallarfoxgras, Snorri 40%, Engmo 35% og vallarsveifgras Balin 25%. Hef ég ráðlagt bændum hér um slóðir að nota þessa blöndu þar sem kalhætta er mikil, því Snorri og Engmo eru með einna mest vetrarþol af þeim yrkjum af vallarfoxgrasi sem er á markaði hér og vallarsveifgrasið er haft með til að vaxa inní eyður ef kemur rof í grassvörðinn t.d. vegna kals. Til viðbótar voru sett 8 kg af sumarrýgresi Barspecrta á hektara til að reyna mögulega að auka uppskeruna í 1. slættti. Ísáningin var framkvæmd 14. maí eða um leið og túnið var orðið nógu þurrt til að þola umferð, en þessar mýrar eru nokkuð rakaheldar og þorna

seinna en móatúnin á Möðruvöllum. Þessi sáðvél er með sáðbreidd sem er aðeins 2,5 m og með aksturshraða um 5 km á klst. tekur um 1,2-1,3 tíma að sá í hvern hektara og með vél með svona búnaði þarf að lyfta á öllum hornum þegar snúið er. Þó afköstin séu ekki mikil þá eru kostirnir við ísáningu margvíslegir eins t.d. að það sáðgresi sem lifir af kalið getur gefið uppskeru við 1. slátt og hægt er að þurrka og raka saman uppskerunni án þess að eiga á hættu að fá moldarmengun í hana eins og getur gerst ef landið er plægt upp og hefðbundin jarðvinnsla á sér stað. Einnig má nefna að við hefbundna jarðvinnslu vill brenna við að yfirborð landsins þorni það mikið að fræið nær ekki að spíra nema að það rigni eftir sáninguna ekki síst þar sem verktakar nota nú orðið mikið svokallaðar loftsáðvélar sem dreifa fræinu ofan á yfirborðið en fella það ekki niður eins og þyrfti að vera, eins og gerist við ísáninguna. Kostnaður við endurræktina ætti að vera minni og kolefnissporið líka eins og svo vinsælt er að tala um núna.

Mynd nr. 5 af Vredo ísáningarvél
Mynd nr. 6, tekin 17. júní sem sýnir góðan árangur ísáningar þar sem sáðgresið er komið vel af stað.
Mynd nr. 7, tekin 9. júlí þar sem ljósu blettirnir eru dauðir stubbar vallarfoxgrassins sem skriðið var við 1. sátt 30. júní

Árangur af ísáningunni með þessari vél við þær aðstæður sem lýst hefur verið var vægast sagt mjög góður, sjá mynd nr. 6. Fyrsti sláttur var sleginn 30. júní og hann miðaður við það, að vallarfoxgrasið sem lifði af kalið væri að mestu skriðið til að minnka sem mest samkeppni þess við nýsáninguna, því sláttutími á vallarfoxgrasi við þetta þroskastig stöðvar vöxt þess í 2-3 vikur þar sem nýir hliðarsprotar sem mynda endurvöxtinn eru lítt þroskaðir á þessu stigi, sjá mynd nr. 7, frá 9. júlí þar sem ljósu svæðin á myndinni sýna stubbinn (dauðir stönglar) af vallarfoxgrasinu 9 dögum eftir 1. sl. og nýir sprotar ekki komnir fram. Uppskeran í 1. sl. var aðeins 18 rúllur eða um 2,65 rúllur af hektara af stærðinni 1,5 m3 og var skráð sem 797 kg þe/ha enda var kalið á spildunni metið um 70-80%. Á þessu stigi var að sjálfsögðu lítil uppskera af nýsáningunni nema þá helst af sumarrýgresinu. Sláttunándin var að lágmarki 5-6 sm frá jörðu.

Á mynd nr. 8 sem tekin er 24. júlí sést vel hvernig vöxtur nýsáningarinnar er orðin meiri og kröftugri  en endurvöxturinn á vallarfoxgrasinu.

Mynd nr. 8, tekin 24. júlí sem sýnir vöxt nýsáningar samanborið við endurvöxt á vallarfoxgrasinu

Annar sláttur sem slegin var 10. ágúst var uppskeran alls 64 rúllur sem gerir um 9,4 rúllur af hektara og var skráð sem 2407 kg þe/ha.

Á mynd nr. 9 frá 13. ágúst sem tekin er 3 dögum eftir 2. sl. sýnir stubb nýsáningar þar sem þekja hans er við að loka sverðinum.

Mynd nr. 9, tekin 13. ágúst 3 dögum eftir 2. sl. sem sýnir stubb nýsáningar sem er við að þekja svörðinn. Góð stubblengd þar sem gert er ráð fyrir 3. sl.

Þriðji sláttur var slegin 14. september og skráð uppskera 11 rúllur, en þá hafði stór álftahópur og gæsaflokkar verið á beit á þessu túni meira og minna frá því um 20. ágúst og má áætla að þeir hafi hirt um helming uppskerunnar sem annars hefði orðið um 22 rúllur og þá um 3,2 rúllur af hektara  sem gerir um 830 kg þe/ha.

Eins og ég nefndi hér að framan ráðlagði ég bóndanum líka að prófa ísáningu með þessari vél í 3 ára endurrækt á móa-/melatúni 7,25 ha að stærð, sem var um 50-60% kalið og nota þá fjölært rýgresi (vallarrýgresi) sem gæti ef vel tækist til gefið meiri uppskeru á 1. ári en ísáning af  vallarfoxgrasi. Þetta tún var einnig slegið þrisvar eins og mýrartúnið og gaf alls 79 rúllur eða um 11 rúllur af hektara og hefði getað gefið meiri uppskeru með meiri áburðargjöf, en þarna er landið frekar magurt. Í 1. slætti sem sleginn var 16. júní komu aðeins tæpar 2 rúllur af hektara, en í 2. og 3. slætti var uppskeran jafn mikil sem slegnir voru 18. júlí og 7. september. Túnið leit mjög vel út síðastliðið haust en erfitt að meta nákvæmlega þekju vallarrýgresisins og verður fróðlegt að fylgjast með uppskeru af því í sumar og næstu 2 til 3 ár, en vallarrýgresi getur enst í nokkur ár ef vetrarálag er ekki of mikið.

Ég ráðlagði öðrum bónda hér í Hörgársveitinni og í Fnjóskadal að prófa þessa ísáningarvél í stað vélarinnar hjá Búnaðarfélaginu Trölla, við sambærilegar aðstæður og voru á Möðruvöllum þ.e. í 1 árs endurræktuð tún og var árangurinn einnig góður þar. Það má segja að ísáning með þessari gerð af ísáningarvél við þær aðstæður sem líst hefur verið hér að framan hafi virkað mjög vel og ráðgjöfin skilað góðum árangri með því betra sem ég hef orðið vitni að á rúmlega 40 ára vinnu við ráðgjöf í jarðrækt. Finnst ástæða til að þessar athuganir og upplýsingar komi fyrir augu bænda hér í Bændablaðinu vegna hugsanlegra viðbragða sem grípa þarf til þegar áföll verða á ræktun eins og vegna kals.

Fyrri greinAðalfundur BSE 10. mars.
Næsta greinAðalfundur Búnaðarsambands Eyjafjarðar var haldinn í Hlíðabæ 10.3. s.l.