Árið 1986 hefja Friðrik Þórarinsson frá Bakka og Sigurbjörg Karlsdóttir frá Hóli við Dalvík búskap á Grund í Svarfaðardal og hafa búið þar síðan.Þau eiga tvo syni og eina dóttur.
Fljótlega í þeirra búskap hófust framkvæmdir og var byggt fjós árið 1990-91 og íbúðarhús 6 árum seinna. Með þá ágætu aðstöðu bjuggu þau þar til að tekið var til við byggingu á nýju fjósi árið 2015, sem var flutt í fyrir réttum 5 árum eða í mars 2016. Nýja fjósið er með mjaltaþjóni og úrvals aðstöðu fyrir dýr og menn og allt hið snyrtilegasta eins og þeirra er von og vísa því snyrtimennska og góð umgengni hefur ávalt einkennt störf Grundarbænda.
Strax og flutt var í fjósið fóru afurðir að vaxa, sem þó höfðu verið ágætar fyrir.
Árið 2017 voru afurðirnar komnar í tæplega 8000 kg/árskú og 16. sæti á landsvísu. Á þeim þremur árum sem skýrslur hafa verið gerðar upp síðan, hefur búið verið með ólíkindum stöðugt í afurðum og í 13., 10. og 11. sæti yfir landið með rúmlega 8000 og upp í 8200 kg á hverja kú, sem hafa verið á bilinu 53 -54 á þessum tíma.
Einnig er talsverð kjötframleiðsla á Grund og nautkálfar látnir lifa og er slátrað 20-25 kjötframleiðslu gripum árlega. Einnig eru á búinu um 90 kindur og hrossarækt sem skilað hefur góðum árangri og dóttir þeirra hjóna gjarnan keppt á hestum úr þeirra ræktun. Það má geta þess að 1. verðlauna stóðhesturinn Vængur frá Grund er í eigu þeirra.
Sigurbjörg og Friðrik fá nautgriparæktarverðlaun BSE fyrir árið 2019 fyrir afburða góðan rekstur og árangur í sínum búskap.