Hvatningarverðlaun BSE vegna 2022 Bændablaðið.

1390

 

Fyrir 28 árum voru nokkur umbrot í félagsmálum bænda, eins og reyndar í öll þau ár sem má rekja þá sögu að bændur hittist á fundum til að berja sér á brjóst og ígrunda með hvaða hætti sé hægt að bæta hag framleiðenda, efla framfarir og stuðla að uppbyggingu sveitanna.

En á Búnaðarþingi fyrir þessum 28 árum, sem var hið fyrsta eftir sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda barst þingfulltrúum í hendur blað í svarthvítu, þann 14.mars 1995, sem var fyrsta eintak Bændablaðsins. Fram að því höfðu verið gefin út árleg rit fyrir hverja búgrein, eins og t.d. Nautgriparæktin, Sauðfjárræktin og síðan Freyr sem var fagrit bænda og nánast þeir einir lásu.
En hvað varð til þess að ákvörðun var tekin um að gefa út blað á tveggja vikna fresti í dagblaðsformi. Þar er best að vitna í Jón Helgason alþingismann og ráðherra og þá fráfarandi formann Búnaðarfélags Íslands. „að sjálfsögðu hinar miklu þjóðfélagsbreytingar, sem orðið hafa á síðustu árum“.

Frá því Bændasamtökin hófu útgáfu Bændablaðsins 1995 hefur blaðið dafnað og eflst mjög. Að jafnaði er það nú gefið út í 33 þúsund eintökum 23-24 sinnum á ári og blaðsíðufjöldinn vaxið jafnt og þétt. Lengi var það 56-64 síður en er í dag 72 blaðsíður. Því er dreift frítt með pósti á öll lögbýli landsins og liggur auk þess  frammi á meira en 400 stöðum til dreifingar.
Það er snúið að meta til fulls hvaða áhrif blaðið hefur haft á umræðu og afstöðu almennings til landbúnaðar, en ljóst er að þau eru mikil og ómetanleg auk þess að efla skoðanaskipti og kynningu á fleiru en landbúnaði.
Ekki má gleyma vef Bændablaðsins, bbl.is sem var hleypt af stokkunum árið 2007 og endurnýjaður eftir þörfum síðan.

Fjórir ritstjórar hafa starfað við Bændablaðið. Áskell Þórisson var sá fyrsti, þá Þröstur Haraldsson, síðan Hörður Kristjánsson og núverandi ritstjóri er Guðrún Hulda Pálsdóttir. Allir hafa ritstjórarnir haldið vel á spilum og blaðið dafnað í þeirra höndum undir leiðsögn og eftirfylgni eigandans Bændasamtaka Íslands.
Allt sem gert er byggir á sínum grunni og þar á meðal okkar góða og verðmæta blað og enginn hlutur er betri en þeir sem að hlúa. Starfsfólk Bændablaðsins undir stjórn Guðrúnar Huldu halda vel á þessum verðmætum sem í höndum þeirra er og samkvæmt skoðanakönnunum, m.a. hjá Gallup á liðnum vetri er Bændablaðið nú um stundir mest lesna blað landsins.

Bændablaðið hlýtur Hvatningarverðlaun BSE fyrir frábæra kynningu á mikilvægi landbúnaðar og á störfum bænda  og fyrir að vera sá öflugi umræðuvettvangur sem dæmin sanna.

Fyrri greinHvatningarverðlaun BSE v. ársins 2022 Bjarni og Hrafnhildur á Völlum
Næsta greinSauðfjársæðingar 2023