Hvatningarverðlaun BSE v. ársins 2022 Bjarni og Hrafnhildur á Völlum

536

Undir Vallnafjalli í hinum  svipmikla Svarfaðardal þar sem fjallið Rimar gnæfir yfir er kirkjustaðurinn Vellir. Á bæjarhlaðinu stendur mikill áletraður steinn sem helgaður er Guðmundi góða Arasyni, sem var prestur á Völlum seint á tólftu öld og er þar einnig Gvendarbrunnur. Vallakirkja var byggð árið 1861 og er því elsta kirkja Dalvíkurbyggðar.

Hugsanlega hafði saga hins forna höfuðbóls áhrif á hvaða lending var tekin þegar Bjarni Óskarsson og Hrafnhildur Ingimarsdóttir ákváðu árið 2004 að söðla um og flytja út á land.  Hugsanlega var það andinn og sálin í 100 ára gömlu íbúðarhúsi á Völlum sem skapaði þá tengingu sem festi þau við staðinn? Þá var meiningin að hægja á, flytja rekstur yfir á synina og njóta lífsins meir en áður hafði verið. Vellir yrðu nýttir sem sumarbússtaður, en sennilega ætlar almættið athafnafólki ekki að vera með fætur á skammeli nema til að skipuleggja næstu skref.

Eitt leiddi af öðru og húsin tóku breytingum, hlaða varð að veislusal, ræktun berjarunna setur nú sterkan svip á ásýnd bæjarins og þar ber að líta stærsta sólberja akur landsins. Gróðurhús eru líklega orðin 7 þar sem er ræktun berja ásamt tilraunastarfsemi um framtíðarþróun. Bleikjur synda í tjörn bakvið bæjarhúsin. Allt þetta ýtti undir að Litla sveitabúðin varð að veruleika. Þar eru að mestu seldar vörur sem hafa orðið til við þeirra ræktun og heimavinnslu matvæla.

Bjarni og Hrafnhildur hafa haldið fegurð Svarfaðardals og samfélaginu þar hátt á lofti. Fjölmiðlar hafa gert starfi þeirra góð skil þannig að eftir hefur verið tekið og m.a. tekinn upp þar hluti af sjónvarpsþáttum Veislan.
Fyrir athyglisverða uppbyggingu á bújörð þar sem hefðbundinn búskapur hafði verið lagður niður og að gefa jákvæða mynd af samfélaginu fá þau Bjarni Óskarsson og Hrafnhildur Ingimarsdóttir Hvatningarverðlaun BSE fyrir árið 2022.

Fyrri greinTillaga um skilarétt matvöru samþykkt á aðalfundi BSE.
Næsta greinHvatningarverðlaun BSE vegna 2022 Bændablaðið.