Hvatningarverðlaun BSE fyrir árið 2021

833

Hvatningarverðlaun BSE fyrir árið 2021
Karólína Elísarbetardóttir Hvammshlíð.
Bóndinn, sem kallar sig Karólínu í Hvammshlíð, er þýskur að uppruna, fædd vorið 1970 og bar í sínu fæðingarlandi nafnið Caroline Mende.
Karólína kom fyrst til Íslands 1989 og fékk strax tilfinninguna „þetta er landið mitt“.  Það var þó ekki fyrr en nokkru síðar sem hún keypti sitt eigið land, fyrst í Hegranesinu og síðan árið 2015 eignaðist hún Hvammshlíð, sem hafði verið í eyði í 127 ár eða frá árinu 1888. Það verður að segjast eins og er að þá töldu margir að ekki væri alveg í lagi með Karólínu. Hvammshlíð er þar sem Þverárfjallsvegur liggur sem hæst milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslu. Þar á hún sitt fjall og sína á og í stað ljósa á nágrannabæjum hefur hún stjörnurnar og er undir norðurljósum. Þar hefur hún  komið upp aðstöðu fyrir sig og sína. Bústofninn er tæpar 60 kindur 3 hross og hundar. Sumir þekkja til Karólínu vegna dagatala sem hún hefur gefið út með margvíslegum upplýsingum um íslenska þjóðhætti. Dagatalsútgáfan stóð t.d. undir kaupum á dráttarvél í Hvammshlíð.
Nýjasta búgreinin hjá Karólínu er ostagerð „Hvammshlíðarostur“, þar sem lögð er áhersla á að nota engin íblöndunarefni sem eru íslensk og kryddun á ostinum úr náttúrunni. Osturinn lenti þó í því að sitja aðeins á hakanum þegar önnur verkefni sóttu á.

Haustið 2020 þegar Fagráð í sauðfjárrækt fór að velta fyrir sér hvort nýjar leiðir væru mögulegar í baráttu við riðuveikina og þar meðal hvort mögulegt væri að flytja inn erfðaefni til að byggja upp verndandi afbrigði gegn riðuveiki í okkar fjárstofni. Á það leist Karólínu ekki og hvatti mjög til þess að leitað væri betur að verndandi arfgerð innanlands. Að sögn Eyþórs Einarssonar ráðunautar í sauðfjárrækt hjá RML var áhugi Karólínu magnaður og mjög hjálplegur við að komast í samband við vísindamenn í öðrum löndum til að leggja grunn að sem faglegustum rannsóknum á arfgerð- og hvort möguleiki væri á að finna verndandi arfgerðasæti íslenska sauðfjárstofnsins. Sem í ljós hefur komið að er farið að finnast.

Karólína í Hvammshlíð fær Hvatningarverðlaun Búnaðarsambands Eyjafjarðar fyrir árið 2021 vegna ódrepandi áhuga, tengingar við erlenda vísindamenn og hvatningar til umfangsmikillar sýnatöku til að greina og finna verndandi arfgerð gegn riðusmiti í íslensku sauðkindinni.
Karólína komst ekki á fundinn en var tengd með fjarfundarbúnaði.
Í ár voru verðlaunin 200.000 kr og verðlaunagripur eftir Guðrúnu Á. Steingrímsdóttur.

Fyrri greinAðalfundur BSE
Næsta greinNautgriparæktarverðlaun BSE fyrir liðið ár, 2021. Svertingsstaðir 2