Forsendubrestur tollasamnings.

1818

Í all mörg ár hefur umræða um innflutningstolla matvæla verið áberandi. Árið 1995 var tollasamningur lögfestur með GATT/WTO samningum (almennur samningur um tolla og viðskipti og Alþjóðaviðskiptatofnunarinnar) sem tóku gildi 1995. Krónutala þeirra tolla er ekki verðtryggð og hafa verðhækkanir margfaldast um 2,6 síðan þeir voru gerðir (vísitala fór úr 174,2 stigum 1.jan 1996 í 460,5 stig janúar 2019) sem þýðir í raun að tollurinn er aðeins 38% af því verðgildi í íslenskum krónum sem var við undirskrift.

Árið 2007 var gerður samningur um aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Þá voru tollar lækkaðir um 40% og með nýjum samningi 2015 voru tollfrjálsir kvótar stækkaðir umtalsvert án þess að stjórnvöld gerðu minnstu tilraun til að meta áhrif þess á efnahag samfélagsins eða landbúnaðinn. Augljóst er að þar voru valdhafar margir hverjir teymdir áfram af embættismönnum sem út frá sínu þrönga sjónarhorni telja viðskiptafrelsi merkara öllu öðru. Það er nokkuð öruggt að þar var ekki verið að hugsa um sanngirni á markaði, lýðheilsu, dýravelferð eða sýklalyfjanotkun við framleiðslu  vörunnar. Þá má nefna að lágmarkslaun í stórum hluta ESB er nálægt því að vera þriðjungur af því sem hér er – sem gerir innlenda samkeppni nánast ómögulega án tollverndar.
Um það sem nefnt er hér að framan er hægt að deila hvort er sanngjarnt eða ósanngjarnt. Hins vegar má benda á að þegar helsta útflutningsland íslenskra vara gengur út úr Evrópusambandinu (og þar með úr samningnum sem gerður var), hlýtur slíkt að leiða til forsendubrests. Brostnar forsendur leiða til ógildingar samnings. Auk almennra raka má vísa til 10 gr. samþykktarinnar frá 17. september 2015 sem hljóðar svo: „The Parties will take steps to ensure that the benefits, which they grant each other, will not be jeopardised by other restrictive import measures.”
Ef ESB getur ekki lengur tryggt aðganginn að Bretlandi er það sannarlega “restrictive import measure” í þessum skilningi. Mætti þannig ganga lengra og ekki bara tala um brostnar forsendur, heldur beinlínis brot á samningnum.

Þetta eru forsendurnar á bak við tillögu um uppsögn tollasamnings við ESB við útgöngu Bretlands. Tillagan er svohljóðandi:

Aðalfundur Búnaðarsambands Eyjafjarðar 2019, haldinn í Hlíðarbæ 5. mars skorar á stjórnvöld að segja upp tollasamningi um tollkvóta landbúnaðarvara milli Íslands og Evrópusambandsins. Í viðræðum við Breta um tollasamning landbúnaðarvara verði höfð hliðsjón af tollasamningi milli Íslands og Sviss.

Greinargerð:
Útganga Bretlands úr ESB skapar algjöran forsendubrest núgildandi samnings. Við gerð þess tollasamnings við ESB sem nú er í gildi voru heimildir til útflutnings auknar og þá sérstaklega á skyri og lambakjöti. Þessar vörur hafa að miklum hluta verið fluttar út til Bretlands en ljóst er að landið er á leið úr ESB sem gerir tollasamninginn ómerkan. Viðsemjandinn er ekki lengur sá sami eftir brotthvarf Breta úr sambandinu.
Á seinustu árum hefur verið meiri útflutningur á lambakjöti og ostum til Bretlands en allra annrra landa ESB til samans sem gerir það ljóst að um samningsrof er að ræða.

Fyrri greinÞröstur og Sara á Moldhaugum hlutu nautgriparæktarverðlaun BSE
Næsta greinFundur um urðunarmál.