Aðalfundur BSE var haldinn í Hlíðarbæ í gær. Samþykkt tillaga um uppsögn tollasamnings við ESB.

1761

Aðalfundur Búnaðarsambands Eyjafjarðar var haldinn í gær 5. mars.
Þar kom fram að reksturinn er í ágætu jafnvægi og var niðurstaða ársreiknings jákvæð um 1,8 milljónir eftir að reiknuð hafði verið jákvæð skattaleg tekjufærsla vegna endurmats eigna. Stjórn félagsins er óbreytt og Gunnhildur Gylfadóttir Steindyrum endurkosin sem formaður. Guðmundur Bjarnason Svalbarði sem hefur verið búnaðarþingsfulltrúi í áratug gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Hermann Ingi Gunnarsson í Klauf kosinn í hans stað.
Erindi á fundinum héldu Einar Ófeigur Björnsson stjórnarmaður BÍ, Jóna Björg Hlöðversdóttir og Baldur H. Benjamínsson sem voru með kynningu á störfum nefndar skipaða af BÍ um endurskoðun félagskerfis landbúnaðarins. Einar Ófeigur fór yfir það sem hefur verið efst á baugi hjá samtökunum. Þar má nefna vinnu við samninga við Ríkið sem verið er að endurskoða þessa dagana, baráttu um að standa vörð um búfjár og lýðheilsu vegna fyrirhugaðs afnáms frystiskyldu ásamt fleiru. Einnig kom fram hjá Einari að fjárhagur BÍ er þungur, m.a. vegna þess að það vantar nokkuð upp á að bændur séu allir að standa undir hagsmunabaráttunni með félagsaðild að BÍ.
Jóna Björg og Baldur Helgi greindu frá að við vinnu félagsmálanefndarinnar væri í upphafi verið að skoða hvernig danskur landbúnaður byggir upp sitt félagskerfi, en þar eiga afurðastöðvar og fleiri hagsmunaaðilar aðild að heildarsamtökunum gegn ákveðinni greiðslu.
Nautgriparæktarverðlaun BSE fyrir liðið ár hlutu þau hjón á Moldhaugum, Þröstur Þorsteinsson og Sara Saard Wijannarong fyrir afar góðan árangur í sínum búskap. Búið á Moldhaugum hefur verið í röð 15 afurðamestu búa landsins nú samfellt í 4 ár.
Saufjárræktarverðlaun hlutu bændur á Svertingsstöðum 2, Hákon B. Harðarson og Þorbjörg H. Konráðsdóttir. Svertingsstaðabúið var á síðasta ári þriðja í röð búa á landinu þar sem ær eru fleiri en 100, með 40 kg eftir hverja á og auk þess í efstu röð búa með gerðarmat og vaxtarhraða lamba.
Hvatningarverðlaun BSE fyrir árið 2018 hlaut fjölskyldan í Fagrabæ vegna fyrirtækis sem þau stofnuðu árið 2017 sem kallast Milli Fjöru & Fjalla. Þar eru unnar vörur úr lamba- og ærkjöti þar sem lögð er áhersla á að auka virði varanna, hafa þær í handhægum umbúðum og án íblöndunarefna. Gæðavara framleidd beint frá býli í nánum tengslum við neytandann. Þess má geta að þau koma til með að kynna sína vöru á Local food festival sem haldin verður í Hofi á Akureyri 16. mars.
Á fundinum voru lagðar fram og samþykktar 10 tillögur auk fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Þar á meðal var tillaga þar sem skorað er á stjórnvöld að segja upp tollasamningi um tollkvóta landbúnaðarvara milli Íslands og Evrópusambandsins sökum forsendubrests samningsins eftir ákvörðun Breta um að ganga úr ESB. Stór hluti útflutnings lambkjöts og osta á grunni þess samnings hefur verið til Bretlands. Hafnar eru, eða eru í undirbúningi viðræður við Breta um samning vegna Brexit. Ekki kemur til greina að ESB samningurinn verði óbreyttur við þessar aðstæður og eðlilegt að honum verði sagt upp eins og staðan er.
Á næstu dögum verður nánar sagt frá aðalfundinum.

Fyrri greinFrumvarp Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu.
Næsta greinBændur á Svertingsstöðum 2 fengu sauðfjárræktarverðlaun BSE fyrir liðið ár.