Sauðfjárræktarverðlaun BSE fyrir 2021, Möðruvellir 2 Hörgárdal.

1630

Árið 2013 var fyrsta árið sem Þórður og Simmi gerðu upp skýrsluhaldið fyrir fjárbúið á Möðruvöllum 2 í Hörgárdal. Þórður og Simmi er nafnið sem þeir bræður Þórður Gunnar og Sigmundur Sigurjónssynir ásamt eiginkonum, Birgitta Lúðvíksdóttir og Helga Steingrímsdóttir nota við búreksturinn.
Eftir að búrekstri Möðruvalla ehf var hætt á bænum tóku Þórður og Birgitta jörðina á leigu og keyptu íbúðarhús sem ber nafnið Möðruvellir 3, fluttu þangað og tóku til við að fjölga kindum og efla sauðfjárbúið. Sigmundur og Helga fluttu í Möðruvelli 4 og hafa rekið sauðfjárbúið þar síðan. Lengst af hafa ábúendur unnið við önnur störf með búskapnum og Þórður við störf hjá BSE og Bókvís ehf um langt árabil og Birgitta einnig um skemmri tíma.

Þau öll sem standa að búrekstrinum hafa frá æsku lifað og hrærst í búskap eða störfum í kring um hann.
Frá upphafi hafa afurðir kindanna verið eins og best gerist og ávalt í hópi þeirra sem ná hvað bestum árangri.
Að meðaltali síðastliðin 8 ár hafa verið um 35 kg eftir vetrarfóðraða á og fallþungi undanfarin ár milli 19 og 20 kg og frjósemi einnig til fyrirmyndar eftir 250-300 ær. Einkunn fyrir gerð er einnig afar góð og fór í rúmlega 11 fyrir tveimur árum.

Við uppgjör síðastliðins hausts voru 278 ær með 1,89 lömb til nytja með 19,3 kg. fallþunga sem gerir 36,7 kg eftir hverja á. Þá skiluðu 36 gemlingar að jafnaði 18,1 kg af kjöti. Einkunn fyrir vöðva 10,66 og fita 7,74 sem gerir hlutfall þar á milli 1,38. Á búinu voru 62 ær fleirlembdar. Frjósemi ánna, vænleiki og gerð lamba á Möðruvöllum 2 er allt til sérstakrar fyrirmyndar.
Fyrir þennan góða árangur fá Þórður, Birgitta, Sigmundur og Helga á Möðruvöllum 2 í Hörgárdal sauðfjárræktarverðlaun BSE fyrir árið 2021 sem veitt voru á aðalfundi 2022.

Fyrri greinNautgriparæktarverðlaun BSE fyrir liðið ár, 2021. Svertingsstaðir 2
Næsta greinTillaga um skilarétt matvöru samþykkt á aðalfundi BSE.