1. gr.
Félagið heitir Búnaðarsamband Eyjafjarðar. Félagssvæði þess nær yfir öll sveitarfélög við Eyjafjörð. Aðsetur þess og varnaþing er heimili formanns hverju sinni, eða formlegt aðsetur þar sem miðstöð starfsemi þess er, samkvæmt nánari ákvörðun.
Sambandið starfar bæði á faglegum og stéttarlegum grunni.
2. gr.
Félagar geta orðið þeir einstaklingar og lögaðilar sem hafa tekjur af landbúnaði og stunda búrekstur í atvinnuskyni. Aðild skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum: Eldi og veiðar á vatnafiski, nýting hlunninda, framleiðsla og þjónusta. Allir félagar skulu hafa sömu réttindi óháð formi á félagsaðild.
3. gr.
Tilgangur félagsins er:
– að annast lögboðna starfsemi búnaðarsambanda hverju sinni.
– að vera aðili að Bændasamtökum Íslands.
– að vera málsvari félagsmanna varðandi búrekstur.
– að vinna að framförum á sviði landbúnaðar.
– að vinna að bættum hag félagsmanna.
– að gæta hagsmuna félagsmanna í markaðs- og kjaramálum.
4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:
– að hafa í sinni þjónustu starfsmenn með sérþekkingu á þeim sviðum sem áhersla er lögð á af félaginu.
– að hafa yfir að ráða húsnæði og nauðsynlegum tækjum til starfseminnar.
– að hafa yfir að ráða og afla nægjanlegs fjármagns til þeirrar starfsemi sem ákveðið er að reka.
5. gr.
Aðalfund skal halda árlega fyrir apríllok. Hann skal opinn öllum félagsmönnum á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Aðalfund skal boða með dreifibréfi eða á annan venjubundinn hátt eigi síðar en 30 dögum fyrir fundardag og aftur a.m.k. viku fyrir fund, þannig að tryggt sé að öllum félagsmönnum sé kunnugt um hann. Málum sem leggja á fyrir aðalfund skal komið til stjórnar a.m.k. 10 dögum fyrir fund
6. gr.
Aðalfundur félagsins kýs 5 manna stjórn. Kjörtímabil eru 3 ár. Úr stjórninni skulu ganga tveir menn árlega í tvö ár en einn maður þriðja árið. Aðalfundur kýs 2 varamenn árlega og skal sá er fleiri atkvæði hlýtur vera fyrsti varamaður. Þá kýs aðalfundur árlega formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Árlega skal kjósa 2 skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra.
7. gr.
Á aðalfundi skal liggja fyrir skýrsla stjórnar, endurskoðaðir reikningar félagsins til afgreiðslu og gengið skal frá fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Skal þar marka verkefni ársins, móta stefnu félagsins, ákveða tekjustofna innan ramma þeirra laga er um það gilda og ákveða árgjöld. Árgjald skal byggt upp sem félagsgjald einstaklings og til viðbótar því árgjald jarðar eða rekstrar, eftir því sem þörf er hverju sinni miðað við samþykkt fjárhagsáætlunar. Einnig skal setja gjaldskrá félagsins fyrir selda þjónustu. Á aðalfundi skal liggja fyrir félagaskrá og aðeins þeir félagar eiga rétt á fundarsetu með fullum réttindum, sem þá eru skuldlausir við félagið.
8. gr.
Samkvæmt 11. gr. Samþykkta Bændasamtaka Íslands skal Búnaðarsamband Eyjafjarðar kjósa 2 fulltrúa á búnaðarþing og tvo til vara. Formaður BSE er sjálfkjörinn. Kjósa skal annan mann til tveggja ára í senn. Einnig skal kjósa 2 varamenn til jafn langs tíma.
9. gr.
Aukafund skal kalla saman í félaginu ef 30% félagsmanna óska þess skriflega. Skal þar geta um tilefni aukafundar. Boðun aukafundar skal fara fram með a.m.k. 10 daga fyrirvara og telst hann löglegur ef löglega er til hans boðað.
10. gr.
Stjórn félagsins annast allar framkvæmdir og rekstur félagsins á milli aðalfunda. Hún má ekki skuldbinda félagið til langframa á neinn hátt umfram það er aðalfundur ákveður eða veðsetja eigur þess.
11. gr.
Félagið hættir störfum og leysist upp, sé það samþykkt á tveimur aðalfundum í röð af meirihluta félagsmanna á félagssvæðinu og ráðstafar þá síðari fundurinn eignum þess ef einhverjar eru.
12. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi ef 2/3 hlutar mættra félaga samþykkja og hafi breytinga verið getið í fundarboði.
Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi 12. apríl 2016.