Frumvarp um afnám frystiskyldu á innflututtu kjöti.

1526

Nú er til meðferðar á Alþingi „frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru“, sem nefnt er til styttingar hráakjötsmálið.

Þann 16. maí sendi stjórn BSE bréf til fulltrúa í atvinnuveganefnd alþingis sem hafði frumvarpið þá til meðferðar. Afrit bréfsins var sent til þingmanna kjördæmisins. Einnig var hringt í einhverja af okkar ágætu þingmönnum.
Ástæðan þess að á þessum tímapunkti var reynt að hafa áhrif, var ekki síst að þær mótvægisaðgerðir sem grípa á til eru ekki tilbúnar þannig að þær geti tekið gildi 1. september eins og til stóð.
Þegar atvinnuveganefnd afgreiddi málið til 2. umræðu var búið að gera nokkrar breytingar til bóta og þar á meðal að lagt er til að lögleitt verði að banna dreifingu á afurðum til að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakterústofna. Gildistökutíma var seinkað um tvo mánuði, eða til 1. nóvember svo og að bætt hefur verið í vægi mótvægisaðgerða og að lið 17. hefur verið bætt við sem fjallar um aukið eftirlit.

Margir hafa lagt lið til lagfæringa á þessu leiðinda máli til að draga úr neikvæðum þáttum þess.
Hér að neðan er bréfið sem sent var.

Berist til fulltrúa í atvinnuveganefnd alþingis.

 

Efni:
Áskorun til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu á innflutt kjöt og fl.

 

Ágæti þingmaður.

Mikil umræða hefur verið um afleiðingar þess að frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu á innflutt kjöt verði lögfest.

Þar sem frumvarpið er til umsagnar og afgreiðslu hjá atvinnuveganefnd Alþingis vill stjórn Búnaðarsambands Eyjafjarðar vekja athygli og leggja áherslu á eftirfarandi atriði.

  1. Ótækt er með öllu að fyrirhuguð lög taki gildi fyrr en mótvægisaðgerðir ráðherra eru komnar í framkvæmd af fullum þunga. Gera þarf greiningu á því hvenær það verði og hvenær verði búið að tryggja nægt fjármagn til verkefnisins áður en dagsetning gildistöku verður ákveðin.
  2. Mótvægisaðgerðirnar eru í 15 liðum. Enginn af þeim er fullkláraður, sumir ekki farnir af stað og aðrir eru komnir með lokadagsetningu sem er löngu eftir að lögin eiga að taka gildi.  Og sumarfríin rétt að byrja.  Það sér hver maður að svona vinnubrögð eru ólíðandi.
  3. Ekki eru nein fordæmi fyrir því að ESB/ESA beiti sér í málum sem eru í ferli hjá þjóðum eins og í þessu tilfelli.
  4. Fresta verður gildistöku fyrirhugaðra laga þar til að liður eitt og tvö í þessari upptalningu verði virkir að fullu.
  5. Væntanlega vill enginn vera ábyrgur fyrir því að viðhaft hafi verið ábyrgðarleysi vegna aukins innflutnings kjöts sem getur valdið lakari stöðu varðandi heilbrigði manna og dýra hér á landi.

Meðfylgjandi er tillaga sem samþykkt var á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar 5. mars sl. sem send var forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt utanríkisráðherra.

 

Aðalfundur Búnaðarsambands Eyjafjarðar, haldinn í Hlíðarbæ þann 5. mars 2019 skorar á landbúnaðarráðherra og ríkistjórn íslands að herða enn frekar þær varnir sem Ísland mun beita vegna fyrirhugaðs afnáms frystiskyldu á innflutt kjöt.

Greinargerð:

Hægt er að fara ótal leiðir til að setja upp hindranir sem tryggja lýðheilsu og búfjárheilbrigði.  T.d. með sölubanni á landbúnaðarvörum sem framleiddar eru við lakari aðbúnað en íslensk framleiðsla býr við.

Tollaeftirlit og tollvernd verður að herða til muna og eðlilegt að við tökum það föstum tökum eins og önnur eylönd með góða sjúkdómastöðu.

Skýrt verði kveðið á um að aðbúnaður dýra og kröfur um sláturhús og kjötvinnslur ásamt sýnatökum verði ekki minni en hér á landi.

Mikilvægt er að farið verði af fullum þunga í þær aðgerðir sem tilgreindar eru í 12 liðum í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Einnig að unnið verði eftir skýrslu starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.

Matvælastofnun verði tryggt nægt fjármagn til að sinna öllu því aukna eftirliti sem innflutningur á landbúnaðarafurðum kallar á og almenningur á rétt á.

Samkvæmt nýjum tölum frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu og Sóttvarnarstofnun Evrópu kemur fram að aukið sýklalyfjaónæmi mælist í bakteríum sem smitast á milli manna og dýra eins og Salmonella og Campylobacter.

Akureyri 16. maí 2019
F.h. Búnaðarsambands Eyjafjarðar.

Gunnhildur Gylfadóttir Steindyrum formaður

Birgir Arason Gullbrekku varaformaður

Gestur Jensson Dálksstöðum meðstjórnandi

Guðmundur Sturluson Þúfnavöllum meðstjórnandi

Helga Hallgrímsdóttir Hvammi meðstjórnandi

Hákon B Harðarson Svertingsstöðum 2, varamaður í stjórn

Aðalsteinn Hallgrímsson Garði, varamaður í stjórn

Sigurgeir B Hreinsson framkvæmdastjóri.

Fyrri greinHvatning til góðrar umgengni.
Næsta greinLokað vegna sumarleyfa.