Frumvarp Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu.

1371

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp um að ekki verði frystiskylda á innfluttu kjöti og að heimilt verði að flytja inn fersk egg og ógerilsneydda mjólk. Það má taka undir að ekki sé gott fyrir Ríkið að hafa Hæstaréttardóm á bakinu þess efnis að það verði að leyfa innflutning með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um og að það sé ótakmörkuð skaðabótaskylda til þeirra sem ætla að flytja inn vöruna.
Það má hins vegar nefna mörg dæmi um að þjóðin hafi staðið í lappirnar þegar mikið liggur við, þegar hagsmunir eru það afgerandi að augljóst er öllu hugsandi fólki hvað þjóðinni er fyrir bestu. Það er súrt að horfa upp á að draumur um hagnað stórkaupmanna af innflutningi sé settur ofar en góðri heilbrigðisstöðu manna og dýra í landinu.
Boðað er að lögð sé fram aðgerðaáætlun í tengslum við frumvarpið þar sem kemur fram að ekki megi bjóða hættunni heim með óvarkárni í tengslum við þessar breytingar og ekki verði gefinn afsláttur af eftirliti og öryggi matvæla og dýraheilbrigði verði áfram í öndvegi hér á landi. Þar er því miður hægt að efast um að eftirlitsaðilar hér á landi hafi burði til að bregðast við í sögu reynslunnar, þegar vitað er að hluti af því kjöti sem flutt er til landsins er ekki á réttu tollnúmeri, skráð sem ódýrari vara til að sleppa við tolla.
Oft hefur komið fram hjá Karli G. Kristinssyni prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlækni við Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hversu mikilvægt hann telur að viðhalda þeirri góðu stöðu sem hér er varðandi sýklalyfjaónæmi og að flestar þjóðir hafi komið sér upp aðgerðaráætlun þar að lútandi. Mikilvægt sé að upplýsa almenning um málið og bregðast til varna. Einnig  má vitna til Lance B. Price sem er bandarískur prófessor og örverufræðingur sem hefur rannsakað sýklalyfjaónæmi á Íslandi. Þegar hann er spurður álits vegna frumvarps landbúnaðarráðherra segir hann, „það er eins og það eigi að framkvæma tilraun á þjóðinni“.  Hann tekur einnig fram að það komi á óvart hversu lágt hlutfall hlutfall sýklalyfjaónæmis sé í fólki hér þrátt fyrir að sýklalyfjanotkun þess sé svipuð og annars staðar. Hans skoðun er að ástæða þess hversu lítið sé um ónæmi hér á landi, sé lág sýklalyfjanotkun í landbúnaði og að hér sé bannaður innflutningur á fersku kjöti. Hvoru tveggja telur hann leiða til lágrar tíðni ónæmis í fólki. Það er eins og eigi að gera tilraun á fólki en ef ónæmir sýklar nái hér fótfestu sé mjög erfitt að snúa því við.
Þegar ráðherra staðfesti reglugerð nú á dögunum um hvalveiðar var minna um að væri verið að velta fyrir sér afstöðu eða ákvörðun Evrópusambandsins. Þá voru rökin m.a. þau að þar á bakvið lægi vísindaleg ráðgjöf og þjóðhagsleg áhrif verði skoðuð. Nú skipta þau ekki máli.
Það vekur líka athygli að sá þrýstingur sem verið hefur á að opna meira fyrir umræddan innflutning komi ekki frá ESB, heldur innlendum kaupmönnum sem trúlega sjái umtalsverðan hagnað í því að fá að flytja meira inn. Það hefur komið fram í skýrslu frá Samkeppniseftirlitinu frá árinu 2015 að arðsemi dagvöruverslana hér á landi er nálægt því þreföld miðað við það sem gerist í Bandaríkunum og Evrópu. Mikill vill meira.
Því er rétt að skora á þá sem sitja á Alþingi að sjá til þess að fram komið frumvarp verði ekki samþykkt nema á því verði gerðar grundvallarbreytingar. Breytingar sem tryggi lýðheilsu þjóðarinnar, breytingar sem tryggi að þær dýraafurðir sem fluttar eru til landsins séu framleiddar við sama aðbúnað og krafist er við búrekstur hér á landi.

Fyrri greinEndurvinnsla og urðun.
Næsta greinAðalfundur BSE var haldinn í Hlíðarbæ í gær. Samþykkt tillaga um uppsögn tollasamnings við ESB.