Endurvinnsla og urðun.

1682

Í Iðnaðarblaðinu sem kom út í dag er viðtal við Sigurð Grétar Halldórsson framkvæmdastjóra Pure North Recycling í Hveragerði, sem sérhæfir sig m.a. í endurvinnslu á notuðu rúlluplasti.
Í þeirri umræðu sem er þessi misserin um takmörkun plastnotkunar og jafnvel bann við notkun á ákveðnum vörum úr plasti, er mikilvægt fyrir landbúnað að það plast sem þar er notað fari sem mest í endurvinnslu. Í fyrrnefndu viðtali við Siguð Grétar kemur fram hversu mikil nauðsyn er á að umgengni um skilavöruna sé með þeim hætti að hún nýtist sem best og að plastið sé sem hreinast og án aðskotahluta.
Á síðustu árum hefur litum á rúlluplasti fjölgað mjög. Gott er að hafa í huga að efni til endurvinnslu er betra, eða gefur möguleika á fjölþættari vinnslu eftir því sem það er ljósara. Hvíta plastið best og svarta verst. Það skapast af því að við þá notkun sem efnið fer í er hægt að gera efnið dekkra en ekki ljósara. Svart verður einungis notað í svarta vöru.
Rétt er einnig að leiða hugann að því hversu mikið urðunarkostnaður samfélagsins hefur hækkað á seinustu árum. Sveitarfélög í þessum landshluta hafa ekki staðið sig sem skildi í þeim málum og því miður þarf að flytja það sem kallað er áhættuúrgangur 1 alla leið á Suðurnes til Kölku þar sem því er brennt. Augljóst er að það verður að leggja kapp á finna lausnir til framtíðar. Tryggja að vel sé staðið að flokkun úrgangs þannig að sem minnst þurfi að urða eða brenna en þar sem ekki verði komist hjá slíku verði leitað hagkvæmustu leiða.
Í næsta mánuði hyggst BSE efna til fundar um förgun og endurvinnslu þar sem þessi mál verða nánar rædd. Urðun og endurvinnsla úrgangs skiptir landbúnað miklu máli.

Fyrri greinAðalfundur BSE verður haldinn 5. mars í Hlíðarbæ.
Næsta greinFrumvarp Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu.